Tónlistarskóli Árnesinga

Tónlistarskóli Árnesinga

Tónlistarskóli Árnesinga er með aðalstöðvar á Selfossi, en Þorlákshafnardeild er í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Deildarstjóri í Þorlákshöfn er Gestur Áskelsson
Sími: 480 3850
Vefsíða tónlistarskólans


Tónlistarskóli Árnesinga var stofnaður árið 1955 og hefur deild hans í Þorlákshöfn verið einn kennslustaða frá upphafi. Í byrjun var kennt á ýmsum stöðum í bænum, t.d. í  kirkjunni, Kiwanishúsinu og í þó nokkur ár voru aðalstöðvarnar í einbýlishúsi í Lýsubergi.

Árið 1996 fékk skólinn loks nokkur herbergi í grunnskólanum til notkunar og varð samband tónlistarskólans og grunnskólans miklu sterkara við það. Tónlist hafði alltaf verið mikilvægur þáttur í lífi í Þorlákshafnarbúa, en varð nú hluti af náminu í skólanum, m.a. vegna þessa að nemendur fengu að fara í tónlistartíma á skólatíma. Það var óvenjulegt á þeim tíma nema í sveitaskólum þar sem nemendur mættu í skólabílum í skólann.

Kennslustofurnar í grunnskólanum nýttust mjög vel til tónlistarkennslu í allmörg ár. Síðustu 15 árin hefur tónlistarkennsla hins vegar breyst mikið, sérstaklega þegar ný aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla var tekin í notkun árið 2000. Námskráin leggur mun meiri áherslu á hópkennslu í formi samspils, hljómsveitarstarfs og tónfræðanáms, sem tónlistarkennurum finnst vera mjög mikilvægur þáttur í góðri tónlistarmenntun. Af þessu leiddi að þörf varð fyrir stærri kennslurými.

Tónlistarkennarar í Þorlákshöfn eru einstaklega ánægðir með nýju kennsluálmuna sem tekin var í notkun árið 2016. Gefur húsnæðið þeim miklu meiri möguleika á breyttum kennsluháttum en áður var.

Tónlistarskóli Árnesinga þakkar Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir allan þann stuðning, sem það hefur veitt tónlist í bænum í gegnum árin og sérstaklega fyrir þessa miklu breytingu á húsnæði skólans, sem tekið var í notkun árið 2016.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?